Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 8 . mál.


Ed.

208. Breytingartillögur



við frv. til l. um efnahagsaðgerðir.

Frá Halldóri Blöndal, Júlíusi Sólnes,


Danfríði Skarphéðinsdóttur og Eyjólfi Konráð Jónssyni.



1.     Við 1. gr. 3. mgr. orðist svo:
.      Lán skv. 1. mgr. þessarar greinar skal undanþegið stimpilgjaldi. Skal það endurgreitt á þremur árum með greiðslum úr ríkissjóði.
2.     Í stað 3.–9. gr. komi fimm nýjar greinar svohljóðandi:
. a.     (3. gr.)
..      Stofna skal rekstrardeild við Byggðastofnun sem hafi það að markmiði að treysta fjárhagsstöðu fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu, meiri háttar skipulagsbreytingar og samruna fyrirtækja og annað það sem til hagræðingar horfir.
..      Deildin skal hafa sjálfstæðan fjárhag.
. b.     (4. gr.)
..      Stofnfé deildarinnar skal vera 1.000 millj. kr. Skal ríkissjóður leggja sjóðnum til 400 millj. kr. á árunum 1989 og 1990, en 600 millj. kr. aflað með innlendu lánsfé er endurgreiðist úr ríkissjóði.
..      Deildinni er heimilt að taka lán hjá Seðlabanka Íslands eða fyrir milligöngu hans að fjárhæð allt að 1.000 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu láns þessa.
..      Rekstrardeild Byggðastofnunar tekur við eignum og skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina.
. c.     (5. gr.)
..      Rekstrardeild er heimilt að hafa milligöngu um skuldbreytingu á allt að 5.000 millj. kr. af lausaskuldum útflutnings- og samkeppnisgreina. Í því skyni er deildinni heimilt að taka við skuldabréfum frá fyrirtækjum í útflutnings- og samkeppnisgreinum og gefa út skuldabréf til lánardrottna þeirra.
. d.     (6. gr.)
..      Rekstrardeild skal undanþegin öllum opinberum gjöldum, hverju nafni sem þau nefnast. Öll skjöl viðvíkjandi lánum sem deildin veitir eða tekur skulu undanþegin stimpilgjaldi.
. e.     (7. gr.)
..      Forsætisráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd 2.–5. gr. laga þessara.



Prentað upp.